Þvottadagur er þriðja ljóðabók Jónasar Reynis Gunnarssonar.
Hlaut Maístjörnuna 2019 (besta ljóðabók ársins 2019).
lífið er ekki ímyndanir
það er sjúkdómar og ást
Þvottadagur er síðasti kafli þríleiks sem hófst með Leiðarvísi um þorp og hélt áfram í Stórum olíuskipum. Bókin lýsir ferðalagi milli þorps og borgar, drauma og veruleika, bernskuminninga og ástarsambanda, og meðal viðfangsefna má nefna dekkjaverkstæði, sorphirðu Reykjavíkurborgar og Michael Jordan. Ferðast er um innri og ytri veruleika í átt að áfangastað og umhverfið dregið upp með sterkum myndum.
Þvottadagur hlaut Maístjörnuna, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Úr umsögn dómnefndar: „Þvottadagur er afar innihaldsrík og margræð ljóðabók. Einkennandi fyrir ljóðin er kraftmikið og hrífandi myndmál og þótt viðfangsefni þeirra séu gjarnan alvarleg er ísmeygilegi húmorinn sjaldnast langt undan. Þetta er sterkt og vandað verk sem vekur lesanda til umhugsunar og hreyfir við honum.“
Kápa: Hjálmar Kakali Baldursson
Útgefandi: Páskaeyjan
Kilja m. flipum, 55 bls.
Ummæli um bókina:
„Stundum fæ ég það á tilfinninguna að tilveran sé óslökkvandi dekkjabrenna. Svo les ég ljóðabók eins og Þvottadagur eftir Jónas Reyni Gunnarsson og mér finnst bara aftur áhugavert að vera manneskja.“ - Lóa Hjálmtýsdóttir
"Hér drýpur smjör af hverri síðu; hugtök og línur sem fylla skrifandi lesanda öfund..." - Hallgrímur Helgason
„Það er einhver tónn í skrifum Jónasar sem er ómögulegt annað en að láta sér líka við.“ - Eiríkur Örn Norðdahl
"...úr verður eitthvað afskaplega þéttofið, áferðarmikið og fallegt." - F.Í. á vef Svikaskálda